Geirlaug Þorvaldsdóttir, dóttir Þorvalds í Síld og fiski, keypti Hótel Holt af systkinum sínum árið 2004 en leigði reksturinn út um árabil. Árið 2011 ákvað hún að byrja að reka það sjálf. Hún segir að það hafi gengið vel að reka hótelið.

„En það má aldrei gleyma því hvað ég er með gott starfsfólk,“ segir Geirlaug. Hún bendir í fyrsta lagi á Sigrúnu Þorgeirsdóttur hótelstjóra, sem tók við 1. febrúar. Hún er hótellærð og viðskiptafræðingur. „Betri manneskju get ég ekki fengið,“ segir Geirlaug. Í öðru lagi bendir hún á Sigrúnu Pétursdóttur móttökustjóra sem tók við 1. maí. „Hún er lærð í ferðamálafræðum frá Hólum. Og það er gaman að segja frá því að þaðan kemur gott fólk,“ segir Geirlaug. Í þriðja lagi bendir hún á Guðbjörgu Helgadóttur skrifstofustjóra sem hefur starfað hjá hótelinu í tíu ár og í fjórða lagi á Elísabetu Snorrason, yfirumsjónarmann með herbergjunum og þvottahúsinu, en Elísabet kemur frá Mexíkó.

„Það eru eingöngu konur í stjórnendastöðum á Hótel Holti,“ segir Geirlaug hreykin.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .