Á síðasta fundi borgarráðs var samþykkt að ráðast í aðgerðir í starfsmannamálum til að mæta mikilli manneklu á leikskólum, frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Meðal annars var samþykkt eingreiðsla til allra yfirmanna þessara stofnana í ljósi mikils álags vegna mikillar manneklu að undanförnu.

Um er að ræða leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og deildarstjóra leikskóla, ásamt stjórnendum frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á fundinum segir fulltrúa flokksins hafa gert alvarlegar athugasemdir við að einungis væri gert ráð fyrir eingreiðslunni til yfirmanna umræddra stofnana en ekki almennra starfsmanna.

„Fráleitt er að miða slíka bónusa við yfirmenn og teljum við brýnt að úr því sé bætt,“ segir Kjartan. „Finnst mér það óeðlilegt og skjóta mjög skökku við enda er augljóst að aukið álag kemur ekki síður niður á almennum starfsmönnum leikskóla, frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva en yfirmönnum þessara stofnana.“

Á fundinum samþykkti borgarráð samhljóða aðgerðir í tólf liðum til að takast á við mönnunarvanda leikskóla, frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva, þar á meðal áðurnefndar tillögur um bónusa til yfirmanna. Að ósk meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata í borgarráði var afgreiðslu viðaukatillagna Sjálfstæðisflokksins um sambærilegar greiðslur til starfsmanna þessara stofnana frestað.

Viðaukatillaga Sjálfstæðisflokksins fólst í að eftirfarandi liðir bætist við:

  • Eingreiðsla til leikskólakennara og annarra starfsmanna leikskóla verði 21.400.000 krónur.
  • Eingreiðsla til starfsmanna frístundaheimila verði 11.000.000 krónur.