Kostnaður við einhliða upptöku evru yrði 80 milljarðar króna, sem færi til að skipta út grunninnistæðum.

Einhliða upptaka evru tekur að hámarki fjórar vikur. Umsóknarferli fyrir fullgilda aðild að ESB tæki aldrei skemmri tíma en fjögur ár að viðbættum þriggja ára aðlögunartíma þar sem Maasticht-skilyrðin þurfa að nást.

Þetta er mat Heiðars Más Guðjónssonar, framkvæmdastjóra Novator og birt er á vef LÍÚ í dag.

Hér að neðan eru stutt samantekt Heiðars Más um samanburð á helstu þáttum einhliða upptöku evru og upptöku með inngöngu í ESB/EMU:

Samanburður á helstu þáttum við einhliða upptöku og inngöngu í ESB/EMU

Tímalengd

Einhliða upptaka tekur 4 vikur í mesta lagi.

Innganga í ESB, að minnsta kosti 4 ár, og svo er 3 ára aðlögunartími þar sem Maastricth skilyrðin þurfa að nást, þannig að 8 ár, er raunhæft að ætla fyrir fullgilda EMU aðild ef allt gengur eftir, kosningar, aðildarviðræður, flýtimeðferð sem Oli Renn yfirmaður stækkunarmála ESB hefur nefnt og uppfylling Maastrict skilyrða.

Tíminn er peningar

Ef reynt er að setja krónuna aftur á flot og tekin til þess erlend lán er ljóst að vaxtastig verður mun hærra en ef um einhliða upptöku er að ræða. Hærri verðbólga, hærri vextir og aukin óvissa myndi hafa í för með sér mikið álag á hagkerfið með auknu atvinnuleysi, lægri hagvexti og miklum samfélagslegum kostnaði.

Kostnaður við upptöku

Einhliða upptaka er 80 milljarðar fyrir að skipta út grunninnistæðum. Nettó gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands 409 milljarðar, síðast þegar hann var uppgefinn, eða 5 föld sú fjárhæð. Við einhliða upptöku væri því hægt að nota um 320 milljarða sem nýtt hlutafé í nýju bankana, greitt inní Evrum.

Innganga í ESB útheimtir að lán IMF og tengdra aðila séu tekin, um 6,5 milljarðar dollara, eða 850 milljarðar króna, auk nettó forða Seðlabankans, eða í heildina um 1200 milljarðar. Hér er ótalinn sá kostnaður sem hlýst af óbreyttri peningamálastefnu, hærri verðbólgu, hærri vöxtum, meiri óvissu, auknu atvinnuleysi og lægri hagvexti sem nefnt var hér að ofan.

Pólitísk áhætta

Með því að halda áfram á sömu braut og leiddi okkur í ógöngur, mikil erlend skuldsetning og gjaldþrota peningastefna, er verið að taka mikla pólitíska áhættu með því að framlengja óbreytt ástand peningamála. Með því að afsala sér peningapólitík með öllu til faglegs seðlabanka er þeirri áhættu eytt.

Pólitísk áhætta alþjóðlega er engin ef tekinn er upp Dollar en Bandaríkin hafa ekkert amast við slíkri upptöku. Pólitísk áhætta við upptöku Evru er önnur og meiri, en miðað við orð þeirra sem til þekkja takmörkuð. Hvort tveggja fullkomlega löglegt samkvæmt öllum milliríkjasamningum Íslands.

Endurreisn bankakerfisins

Með því að taka upp alþjóðlega mynt einhliða er von til þess að íslenska bankakerfið geti rétt úr kútnum. Ef það á að byggja á smárri og ótryggri mynt er ljóst að bankakerfið mun ekki bera sitt barr framar. Til þess er tíminn að upptöku nýs gjaldmiðils í gegnum aðildarumsókn að ESB og uppfyllingu Maastricht skilyrða of langur.

Lánveitandi til þrautarvara er alltaf ríkið, ekki seðlabankar, eins og komið hefur í ljós hjá Belgíu, Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem ríkið hefur komið beint að björgun banka, án milligöngu eða aðstoðar seðlabanka.

Að það þurfi peningaprentun, sem er framtíðarskattur, til að leysa úr slíku stenst ekki nútíma aðstæður þar sem Seðlabankar geta ekki prentað fjármagn og komið til banka nógu hratt.

Bankaáhlaup er líklegra ef grunnmynt kerfisins er ónýt þó svo væntingar séu til þess að úr rætist á 8 árum. Ef reynt yrði bankaáhlaup í Hong Kong eru innistæður tryggðar upp að um 20% með lausu fé stjórnvalda.

Á Íslandi myndi afgangur af gjaldeyrisforða Seðlabankans fara langt með að tryggja 25% af heildarinnistæðum, og ef lífeyrissjóðir landsins myndu gangast í ábyrgðir, fyrir þóknun, með um 3 milljarða Evra erlendum eignum sínum, en sömu sjóðir voru tilbúnir að kaupa Kaupþing fyrir 6 vikum síðan fyrir sömu fjárhæð, myndi kerfið vera tryggt fyrir yfir 75% innistæðna.

Það með væri íslenska bankakerfið það tryggasta sem um getur, en Hong Kong vermir efsta sætið í dag hjá þróuðum ríkjum.