„Ef við viljum fá fjármálakreppu aftur þá lyftum við gjaldeyrishöftum, tökum einhliða upp annan gjaldmiðil og fáum á okkur áhlaup á bankakerfið,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann varaði við einhliða upptöku annars gjaldmiðils án samstarfs viðkomandi lands. „Ef það er ekki gert þá getur það verið stórhættulegt,“ sagði Már.

Guðlaugur Þ. Þórðarson þingmaður sem sæti á í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis spurði Már, Arnór Sighvatsson og Rannveigu Sigurðardóttur frá Seðlabankanum um kosti og galla einhliða upptöku annars gjaldmiðils á opnum fundi nefndarinnar í morgun.

Már sagði ljóst að flókið væri að reka sjálfstæða peningastefnu samhliða fullkomlega frjálsum fjármagnshreyfingum. Betra væri að hafa einhvers konar höft á myntinni eða reyna að stilla stefnuna af. Már benti hins vegar á að ekki væri réttmætt að fjalla um heilsufar íslensku krónunnar um þesasr mundir. Gengi hennar væri í sögulegu lágmarki og muni það hækka þegar fram í sæki. Hvernig það gerist muni tíminn leiða í ljós.

Már sagði Seðlabankann vera um þessar mundir vinna að ítarlegri skýrslu um gjaldmiðlamálin sem fyrirhugað er að birta í byrjun næsta árs. Á meðal efnis í skýrslunni eru kostir og gallar upptöku annars gjaldmiðils.