Allir nefndarmenn peningastefnunefndar studdu tillögu seðlabankastjóra að hækka meginvexti bankans um 0,75 prósentur, að því er fram kemur í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var á vef Seðlabankans í dag. Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti 9. febrúar síðastliðinn að stýrivextir yrðu hækkaðir úr 2,0% upp í 2,75%. Í yfirlýsingu nefndarinnar sagði að verðbólguhorfur hefðu versnað og að verðbólga yrði yfir 5% fram eftir þessu ári.

Nefndarmenn ræddu að hækkun húsnæðisverðs vægi þungt í verðbólgunni en að aðrir innlendir kostnaðarliðir hefðu einnig hækkað og við bættist hækkun alþjóðlegs olíu- og hrávöruverðs. Allir nefndarmenn voru sammála því að hækka þyrfti vexti og var rætt um hækkun á bilinu 0,5-1 prósenta.

Helstu rök sem komu fram fyrir því að taka minna skref voru m.a. þau að hluti verðhækkana væri tengdur afleiðingum farsóttarinnar og að áhrifin af þeim myndi fjara út á næstu misserum. Þá kom fram að stærri hluti heimila væri með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og því myndu áhrif vaxtahækkana koma hraðar fram en áður fyrr.

Helstu rök sem fram komu fyrir því að taka stærra skref voru þau að útlit væri fyrir að verðbólga myndi hjaðna hægar í markmið en áður hafði verið búist við. Meginvextir bankans væru nú komnir á svipað stig og áður en farsóttin barst til landsins en umsvif í þjóðarbúskapnum væru jafnvel kröftugri nú en þá. Eðlilegt væri að stíga fastar til jarðar til að bregðast við þrálátri verðbólgu og versnandi verðbólguhorfum, nú þegar efnahagsbati væri hafinn, atvinnuleysi minnkandi og framleiðsluslaki líklega horfinn.

Í peningastefnunefnd sitja eftirtaldir: Ásgeir Jónsson, formaður, Rannveig Sigurðardóttir, Gunnar Jakobsson, Katrín Ólafsdóttir og Gylfi Zoega.