Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir að Ragnar Árnason hagfræðiprófessor virðist vera að halda fram „einhverri alveg nýrri hagfræðikenningu,“ en í viðtali við Viðskiptablaðið í gær gagnrýndi Ragnar Seðlabankann harkalega.

Hagfræðiprófessorinn sagði að Seðlabankinn hefði gert „stórkostleg ný mistök“ með því að bregðast við hefðbundnum mistökum í fjármálastjórn hins opinbera með vaxtahækkunum, sem ekki hefðu dregið úr eftirspurn, þar sem fólk og fyrirtæki hefðu þá slegið ódýr lán erlendis. Stýrivaxtahækkunin hefði hækkað gengi krónunnar, komið niður á útflutningsatvinnuvegunum og falið verðbólguna.

„Hann virðist vera að halda þarna fram einhverri alveg nýrri hagfræðikenningu, sem gengur út á að það skuli ríkja algjört stjórnleysi í peningamálum. Seðlabankar eigi ekki að bregðast við breytingum á verðbólguhorfum með vaxtatækinu. Ég held að það standi nú aðallega upp á Ragnar að útskýra með hvaða hætti hann vilji þá stuðla að stöðugleika verðlags í landinu, ef ekki á að beita peningastefnunni. Fyrir utan það að við gætum gengið í Evrópusambandið og tekið upp evruna, en mér sýnist að hann sé ekki að leggja það til,“ segir Arnór.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .