Viðskiptavinir Nova munu á næstu dögum byrja að borga fyrir notkun á rafrænum skilríkjum í farsíma. Notendur skilríkjanna munu greiða 14 krónur fyrir hverja innskráningu með þeim, sem hefur hingað til verið ókeypis. Þetta staðfestir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova. Hún segir ástæðuna vera þá að þegar rafræn skilríki séu notuð feli það í sér hefðbundna notkun á fjarskiptakerfi félagsins. Því sé eðlilegt að notendur greiði fyrir notkun þeirra, en breytingarnar taka gildi á næstu dögum.

Auðkenni byrjar að rukka á næsta ári

Önnur fjarskiptafyrirtæki velta því nú fyrir sér hvenær byrjað verði að innheimta fyrir notkun rafrænna skilríkja. Í því sambandi þarf þó að líta til fleiri þátta, en í nýrri gjaldskrá Auðkennis kemur fram að í byrjun næsta árs verði fjarskiptafyrirtækin rukkuð um 88 til 110 krónur á mánuði fyrir hvert virkt rafrænt skilríki, eða á bilinu 1.056 til 1.320 krónur á ári.