Orri Freyr Rúnarsson Rúnarsson var með þætti á útvarpsstöðinni X977 í nokkur ár áður en hann fór út í nám til Bandaríkjanna með kærustu sinni sem fór í framhaldsnám við Harvard í lögfræði.

,,Ég hafði alltaf hugsað mér að fara í meira nám, en hafði í raun ekki hugmynd um hvað ég vildi læra en eftir að hún komst inn, fór ég að skoða af alvöru það nám sem er í boði í Boston. Mér datt fljótlega í hug að fara í eitthvað skapandi tengt markaðsfræði, og þá var mér bent á þetta nám í Emerson College,“ segir Orri Freyr en hann starfar nú hjá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargatan.

,,Við erum aðallega í því að framleiða auglýsingar og önnur myndbönd, og svo sjáum við oft um alls kyns hugmyndavinnu fyrir okkar viðskiptavini.“

Orri Freyr segist þó alltaf sakna útvarpsins svolítið, svo hann reyni að vera með annan fótinn þar í verkefnum og afleysingum.

,,Það er svo margt skemmtilegt við þetta, tónlist hefur verið eitt aðaláhugamálið mitt lengi og svo er einhver lúmsk athyglissýki í bland við það, svona án þess að andlitið á manni komi fram,“ segir Orri Freyr sem segir það þó ekki oft gerast að fólk þekki röddina hans.

,,Það gerist einstöku sinnum, en sem betur fer er það ekki oft.“ Orri Freyr segir Boston vera frekar þægilega borg að búa í þó allt sé stærra í sniðum en í Reykjavík.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .