Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um þrjá af þeim vogunarsjóðum sem keyptu kröfur á íslensku bankana Glitni, Kaupþing og Landsbanka Íslands í kjölfar fjármálahrunsins 2008. Kröfur í bú bankanna námu þúsundum milljarða króna og endaði stór hluti þeirra í höndum vogunarsjóða sem keyptu þær með talsverðum afföllum.

Líkt og greint hefur verið frá högnuðust vogunarsjóðirnir Baupost og Eton Park um tugi milljarða á viðskiptum sínum með kröfur á föllnu bankana. Báðir áttu þeir sameiginlegt að hafa losað sig við kröfur sínar löngu áður en til nauðasamninga kom, en verð á kröfum tók litlum sem engum breytingum frá og með árinu 2010. Þeir sjóðir sem keyptu kröfur sínar eftir það tímabil höfðu ekkert upp úr krafsinu og flestir þeirra sjóða sem enn áttu kröfur við nauðasamninga þurftu að sætta sig við tap upp á milljarða. Má þar m.a. nefna sjóði í eigu hinna þekktu fjárfesta George Soros og John Paulson .

„Einhyrningurinn“ eftirbátur læriföðursins

Á meðan áðurnefndur Baupost hagnaðist um tæpa 46 milljarða króna á kröfum sínum m.v. 15% ávöxtunarkröfu var ekki sömu sögu að segja af fyrrum starfsmanni sjóðsins. David Abrams stofnaði vogunarsjóðinn Abrams Capital árið 1999 eftir að hafa starfað undir handleiðslu hins þekkta fjárfestis Seth Klarmans hjá Baupost í ellefu ár. Í grein Wall Street Journal um sjóðstjórann var honum lýst sem „einhyrningi“ í fjármálageiranum vegna þess hve fáir höfðu séð hann berum augum. Ólíkt mörgum vogunarsjóðstjórum, sem oft eru eins konar rokkstjörnur fjármálaheimsins, kýs Abrams að tjá sig aldrei opinberlega um fjárfestingar sínar eða málefni líðandi stundar en þrátt fyrir það tókst honum að safna átta milljörðum Bandaríkjadala í sjóð sinn. Íslandsfjárfesting Abrams virðist þó alls ekki hafa reynst arðbær, en sjóður hans var fyrst meðal stærstu kröfuhafa Kaupþings í maí 2012 og átti þá kröfur fyrir 114 milljarða króna að nafnvirði.

Ári síðar átti Abrams kröfur upp á 215,7 ma.kr. að nafnvirði og síðasta árið fyrir nauðasamninga bætti hann enn við sig og átti í nóvember 2015 kröfur á Kaupþing upp á 345 ma.kr. að nafnvirði og var þá stærsti einstaki kröfuhafi bankans. Væntar endurheimtur við gildistöku nauðasamninga voru einungis örlítið hærri en það verð sem sjóðurinn virðist hafa keypt flestar kröfur sínar á, eða tæp 25 prósent af nafnvirði. Miðað við 15% ávöxtunarkröfu, sem vogunarsjóðir gera gjarna á fjárfestingar sínar, tapaði Abrams Capital tæpum 9 milljörðum króna á fjárfestingu sinni í Kaupþingi, en hann náði einungis rúmlega 4% ávöxtun á fé sitt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .