„Það eru einhverjir tveir eða þrír búnir að hringja út af honum,“ segir Lárus Atlason, sölumaður hjá Nýju bílahöllinni um Ferrari 328 GTS sportbíl sem þar er til sölu. Bíllinn kom á söluskrá í haust og kostar rétt tæpar 15 milljónir króna. Þetta er eini Ferrari-inn sem skráður hefur verið hér á landi.

Bíllinn, sem er rauður að lit, kom á götuna árið 1989. Hann er 8 strokka, með 289 hestafla bensínvél og fimm gíra beinskiptingu.

Hann var fluttur til landsins fyrir 13 árum og hefur verið í eigu sama einstaklings síðan þá. Hann er ekki mikið ekinn, 34 þúsund kílómetra á þeim 24 árum síðan hann var nýskráður og gera það rétt rúma 1.400 kílómetra á ári. Hann er á númerum og með skoðun fyrir þetta ár.

Þegar vb.is spurði Lárus hvað svona bíll eyði á hundraðið svarar hann því til að slíkt eigi ekki við.

„Maður spáir aldrei í það þegar maður á sportbíl eins og þennan. Þetta er bara hobbí,“ segir hann.