„Ég hef sagt að ef hlaupabrautin fer, þá teldi ég það álitlegan kost að einkaaðilar kæmu með fjármagn og þjónustu að vellinum. Þannig myndi þarna verða leikvangur sem hefði líf í sínu nánasta umhverfi allt árið um kring,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ), í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að KSÍ og stjórnvöld hafi óformlega rætt um stækkun Laugardalsvallar, en nýtt keppnisfyrirkomulag á Evrópumóti landsliða sem hefst árið 2018 gerir ráð fyrir að leikdagar verði m.a. yfir vetrartímann á Íslandi þegar aðstæður til knattspyrnuiðkunar utandyra eru slæmar. Geir telur að bregðast þurfi við þessu með yfirbyggðum velli.

Samhliða telur hann að bæta þurfi við stúkuplássi svo fleiri komist á völlinn og segir hann heppilegt að einkaaðilar komi að stækkuninni. Þar geti verið ýmis þjónusta á borð við hótel og veitingastaði.