Áfundi, sem Sigríður Á. Andersen þingmaður stóð fyrir í vikunni kynnti Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi, samning fyrirtækisins og Garðabæjar um endurheimtingu votlendis í bæjarfélaginu.

Sigríður segir í samtali við Viðskiptablaðið að þegar hún hafi fyrst vakið máls á því að endurheimting votlendis gæti verið besta leið Íslendinga til að draga úr losun koltvísýrings hafi Úlfar komið að máli við hana.

„Hann sagðist vilja leggja sitt af mörkum, vegna þess að þrátt fyrir allt þá kemur hluti losunar koltvísýrings frá bílum og Úlfar vildi vinna á móti þessari losun. Á fundinum á þriðjudaginn kynnti hann verkefni sem Toyota er að fara í með Garðabæ um endurheimtingu á votlendi í Álftanesi annars vegar og hins vegar við Urriðavatn. Þar er markmiðið að byggja upp útivistarsvæði auk þess sem endurheimting votlendisins mun vega mjög upp á móti annarri losun koltvísýrings. Þetta er afar gott dæmi um það hvernig einkaaðilar og hið opinbera geta unnið að umhverfismálum í sameiningu án þess að skattgreiðendur borgi brúsann,“ segir Sigríður.