Einkaaðilar treysta sér ekki til að taka byggingaráhættuna á nýja Landspítalanum og lítur allt út fyrir að um opinbera framkvæmd verði að ræða. Áður var stefnt að svokallaðri leiguleið um þetta er fjallað í frétt í Morgunblaðinu í dag.

Í fréttinni segir að lífeyrissjóðir og aðrir einkaaðilar treysta sér ekki til að taka byggingaráhættuna og Ríkisendurskoðun og Fjársýslan túlka bókhaldsreglur þannig að heildarskuldbinding ríkisins færist eftir sem áður í bækur ríkisins eins og um opinbera framkvæmd sé að ræða. Þá þurfi að bókfæra framkvæmdina á sjö árum í stað nokkurra áratuga. Því sé eðlilegara og hagkvæmara að ríkið annist byggingu spítalans samkvæmt Gunnari Svavarssyni, formanni byggingarnefndar nýja spítalans.

Þorbjörn Guðmundsson sem situr í samráðsnefnd fyrir hönd lífeyrissjóða varðandi fjármögnun á byggingum nýja spítalans segir lífeyrissjóði reiðubúna til að koma að fjármögnun en ekki hafi náðst samstaða með hvaða hætti það ætti að vera. Hann segir ekki næga reynslu eða þekkingu á meðal þeirra til að reka eitt stærsta hús landsins og taka sig alla byggingaráhættuna.