Ekki er gert ráð fyrir að nýr Laugardalsvöllur verði í einkaframkvæmd líkt og Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ, talaði fyrir. Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ, segir slíkt ekki á teikniborðinu.

„Þetta er dýr framkvæmd og stofnframlagið er auðvitað umtalsvert og það er í sjálfu sér mjög erfiðleikum bundið að fá það stofnfé með einhvers konar ávöxtun fyrir einkaaðila nema þá að það fylgi einhvers konar byggingarfermetrar aðrir, hvort sem það eru þá íbúðabyggingar eða hótel,“ segir Guðni.

Hann bendir á að aðal- og deiliskipulag Laugardalsins setji ákveðnar skorður hvað sé hægt að byggja þar.Því er nú horft til þess að ríkið og Reykjavíkurborg fjármagni byggingu leikvangsins.

Geir talaði fyrir því að samhliða byggingu nýs leikvangs yrði reist upp aðstaða fyrir fjölbreyttari þjónustu. „Ef það á að ráðast í framkvæmdir í Laugardalnum þá þurfa mannvirkin að þjóna meiri tilgangi en bara í kringum knattspyrnu,“ sagði Geir í samtali við Viðskiptablaðið í september 2016 . „Það þarf að skapa meiri rekstrartekjur en fást eingöngu með knattspyrnuleikjum. Það er alveg ljóst,“ sagði hann.

Í niðurstöðum starfshóps ríkisins, Reykjavíkurborgar og KSÍ frá því í apríl síðastliðnum segir að ljóst sé að þjóðarleikvangur verður ekki reistur nema stofnkostnaður sé að miklu leyti greiddur af opinberum aðilum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .