Viðskiptaráð Íslands hefur sent frá sér skoðun þar sem hvatt er til þess að ítarleg umræða fari fram um fyrirkomulag samgöngumála á Íslandi og að rekstur samgöngumannvirkja verði í auknum mæli færður til einkaaðila.

Halldór Benjamín Þorbergsson hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands segir að reynsla annarra landa virðist leiða í ljós að hagkvæmni slíkra framkvæmda margfaldist við aðkomu einkaaðila og kostnaður við bæði rekstur og framkvæmd dragist saman auk þess sem gæði aukast og slysum fækkar.

Halldór segir í viðtali í Viðskiptablaðinu í dag að margar ástæður fyrir því að vert sé að skoða þessi mál nú, í fyrsta lagi eru vegaframkvæmdir 65% af heildarframkvæmdaútgjöldum ríkisins og því er eðlilegt að endurskoða þennan útgjaldalið betur. Í öðru lagi eru nú komnir fram einkaaðilar sem hafa lýst yfir áhuga á að taka að sér rekstur samgöngumannvirkja, en félagið Norðurvegur hyggst leggja veg yfir Kjöl og Sjóvá hefur lýst yfir áhuga á að taka að sér rekstur Suðurlandsvegar. Í þriðja lagi hafi reynsla annarra landa af einkaframkvæmd í samgöngumálum gefið góða raun. Og í fjórða lagi gæti þetta framtak orðið til þess að ný sóknarfæri yrðu til fyrir einkaaðila sem gætu eflt atvinnulífið.

í viðtalinu kemur einnig fram að Halldór telur ástæðuna fyrir því að umræðan um einkarekstur samgöngumannvirkja sé ekki komin lengra en raun ber vitni vera þá að fólki sé almennt illa við þá hugmynd að þurfa að taka upp veskið og borga fyrir notkun vega og annarra samgöngumannvirkja.

Hinsvegar segir Halldór að hægt sé að skipuleggja gjaldtöku með öðrum hætti. "Í stað þess að nota beina gjaldtöku er hægt að setja upp svokölluð skuggaveggjöld sem virka á þann veg að einkaðilinn sem sér um reksturinn heldur utan um hversu margir bílar nýta veginn eða mannvirkið og gera samning við ríkið um að borga ákveðið gjald fyrir hvern bíl. Þannig finnur notandinn aldrei fyrir kostnaðinum á sínu eigin skinni og ríkið greiðir fyrir þjónustuna úr sameiginlegum sjóðum.

(Meira í viðskiptablaðinu í dag)