Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, er stjórnarformaður fyrsta innviðasjóðs landsins, Innviða fjárfestinga slhf. Hann segir einkaframtakið nauðsynlegt í uppbyggingu og viðhaldi hagrænna innviða og telur lífeyrissjóðina geta komið að stærstu innviðaverkefnunum sem framundan eru.

Fyrir tveimur árum síðan var gengið frá stofnun framtakssjóðsins Innviða fjárfestinga slhf. með stofnfé frá lífeyrissjóðum. Getur þú sagt mér aðeins nánar frá félaginu?

„Hingað til hef ég farið í eina fjárfestingu með lífeyrissjóðunum í innviðum, í HS veitum. Þar tel ég að vel hafi tekist til. Rafmagnsreikningar til viðskiptavina hafa ekki hækkað, ólíkt og hjá til dæmis Orkuveitu Reykjavíkur. Samt hafa fjárfestingar HS veitna fjórfaldast, hagnaður aukist mikið og útgreiðslur til hluthafa sömuleiðis.

Sjóðurinn, sem er rekinn dags daglega af rekstrarfélaginu Summa, er með yfir 30 milljarða í fjárfestingargetu í eigin fé og yfir 22 lífeyrissjóði innanborðs. Hanngetur því tekið þátt í stærstu verkefnum tegndum innviðum sem eru fram undan. Síðan geta lífeyrissjóðirnir alltaf stofnað fleiri sjóði eða bætt við þennan.“

Er einkaframtakið nauðsynlegt í uppbyggingu og viðhaldi innviða?

„Íslenska ríkið er búið að fjársvelta innviði landsins síðastliðinn áratug. Það er uppsöfnuð fjárfestingarþörf í landinu upp á 700 milljarða króna. Lífeyrissjóðirnir eru fjársterkir og eru allir mjög fyrirferðamiklir á hlutabréfamarkaði, skuldabréfamarkaði og fasteignamarkaði. Það er ekki á þær fjárfestingar bætandi. Í sambærilegum samfélögum úti í heimi eru lífeyrissjóðir með um það bil 15% af eignum sínum í innviðum. Hérna eiga þeir það allt eftir. Íslenska ríkið skuldar 2.000 milljarða. Miðað við þessa stöðu er betra að fá einkaaðila með áhættufjármagn að borðinu. Við teljum að ríkið eigi að sjá um félagslega innviði en að utanaðkomandi aðilar komi að uppbyggingu og viðhaldi hagrænna innviða. Til dæmis teljum við að lífeyrissjóðirnir gætu komið með fjármagn inn í samkeppnisrekstur Leifsstöðvar. Það er jákvætt að sjá að núverandi ríkisstjórn sé með uppbyggingu innviða með aðkomu einkaaðila á stefnuskránni.“

Fjarskipti í hringiðu tæknibreytinga

Þú ert bæði stjórnarformaður og fjárfestir í Vodafone. Hvernig metur þú stöðuna og horfurnar í fjarskiptageiranum?

„Það sem við erum að sjá í dag er að tæknivæðingin, eða fjórða iðnvæðingin eins og hún er oft kölluð, er að valda svokölluðu disruption um víðan völl, þar sem gömul, hefðbundin viðskiptamódel eru tætt í sundur. Það sem er spennandi við þá þróun er að hún bætir framleiðni og meðferð fjármuna, eykur afköst og býr til betri vörur á lægra verði en áður. Í framtíðinni verða því mjög sterkir kraftar til verðhjöðnunar.

Það sem er spennandi við fjarskiptageirann er að hann er eiginlega fyrstur til að innleiða þessar breytingar. Fjarskiptabransinn og upplýsingatæknin eru alltaf að renna meira saman. Til dæmis verður greiðslumiðlun bankanna í raun tekin af þeim í byrjun næsta árs með innleiðingu nýrrar persónuverndarlöggjafar í Evrópusambandinu. Þeir verða neyddir til þess að hleypa öðrum inn í greiðslumiðlunarkerfið sitt. Þá geta þess vegna fjarskiptafyrirtæki séð um alla greiðslumiðlun fyrir einkaaðila.“

Á hefðbundin bankastarfsemi þá einhverja framtíð fyrir sér?

„Margir hafa áhyggjur af því hvað verði um bankana núna. En ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvort það sé yfirhöfuð einhver framtíð fyrir bankana. Fjártæknin (FinTech) og tæknivæðingin eru að kollvarpa þeirra viðskiptamódeli. Þeir byggja starfsemi sína á greiðslumiðlun og útlánastarfsemi, en þeir eru í auknum mæli að missa það frá sér. Þá er upplýsingatæknibyltingin að draga úr kerfislegu mikilvægi bankanna og kerfislegri áhættu. Tæknibyltingin er einnig að draga úr samkeppnishömlum. Með þessari persónuverndarlöggjöf verður miklu auðveldara fyrir alþjóðlega aðila að veita bankaþjónustu hér í gegnum netið. Allt er þetta mjög jákvætt.

Íslenska bankakerfið er hálflamað. Þetta bankakerfi er ekki að drífa áfram eitt né neitt. Ef bankar almennt vilja eiga eitthvert erindi inn á fjármálamarkaði verða þeir að þróast í samræmi við tæknibyltinguna. Hér heima verður ríkið að selja bankana til aðila sem eru tilbúnir að taka slaginn um breytingarnar sem eru í vændum, vegna þess að allur ríkisrekstur er tregur til að breytast. Annars sitjum við uppi með vanþróað, kostnaðarsamt og ósamkeppnishæft bankakerfi. Það er frábært ef hægt er að selja þessa banka. En ég myndi ekki vilja kaupa þá.

Í raun tel ég að allar hefðbundnar atvinnugreinar standi frammi fyrir algerum umskiptum í framtíðinni. Það eru spennandi tímar fram undan og miklar breytingar í farvatninu sem munu skila neytendum gríðarlegum ávinningi. Þau fyrirtæki á Íslandi sem fagna breytingunum eiga kost á mun stærra markaðssvæði en bara Íslandi, ef vel tekst til.“

Nánar er rætt við Heiðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .