Hlutfall vergrar landsframleiðslu hér á landi sem fer í rannsókna- og þróunarstarf var 2,19% á síðasta ári, en það er aukning úr 2,01% árið 2014 og 1,76% árið 2013.

Skýringuna má finna í auknum útgjöldum fyrirtækja í þessi málefni, en þau jukust úr 18,7 milljörðum króna árið 2013 í 24,7 milljarða 2014. Árið 2015 mælast þau hins vegar 31,4 milljarðar króna, svo aukningin frá 2013 nemur 68%.

Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar, en þar segir jafnframt að áður útgefnar tölur fyrir útgjöld til rannsókna og þróunar fyrir árin 2013 og 2014 hafi verið endurskoðuð út frá nýafstaðinni gagnasöfnun og töflurnar því verið uppfærðar á vefsíðu stofnunarinnar.