Eftirlitsgeirinn hefur verið áberandi í umræðunni eftir að Kastljós uppljóstraði um Brúnegg og umdeilda frammistöðu MAST í því máli. Umræðan hefur þá annaðhvort snúist um það hvernig bæta megi eftirlitsstofnanir hins opinbera eða hvernig einkarekstur geti tekist á við slíkar áskoranir. Fyrirtæki á borð við Aðalskoðun, Frumherja og Tékkland eru dæmi um afrakstur einkageirans og gætu því verið fordæmi fyrir frekari einkavæðingu á sviði matvælaeftirlits.

Orri Hlöðversson, forstjóri Frumherja, segir það mikilvægt að velta fyrir sér ákveðnum grundvallarspurningum og telur jafnframt að einkareknar skoðunarstofur á Íslandi hafi hingað til staðið sig vel. „Við höfum nú ekki viljað blanda okkur beint inn í umræðuna um þetta blessaða Brúneggjamál, en það þarf auðvitað að velta því fyrir sér hvernig tryggja megi skilvirkt eftirlit sem framkvæmt er með réttum hætti. Öll grundvallaratriði verða að vera tryggð og að mínu mati hefur einkaaðilum tekist vel að sinna eftirliti hingað til.“

Vinnuvélarnar enn hjá ríkinu

Eftirlits- og vottunarfyrirtæki hafa um langt skeið verið á höndum ríkisins, en upp úr 1988 var fyrirtækið Bifreiðaskoðun Íslands hf. stofnað til að taka við af Bifreiðaeftirliti ríkisins. Árið 1997 var því félagi svo skipt upp í tvö félög, annars vegar Skráningarstofan hf., sem síðar varð Samgöngustofa og hins vegar Bifreiðaskoðun hf., sem síðar varð Frumherji hf. Í kjölfarið var einkaaðilum að hluta til heimilað að sinna eftirliti á öðrum sviðum.

Orri segir einkavæðinguna fyrst hafa gengið vel fyrir sig, en af einhverjum ástæðum hafi  þróunin stoppað. „Við vottum í dag allt frá neysluveitum til orkumæla, en keppum einnig við önnur fyrirtæki á sviði bifreiðaeftirlits. Af einhverjum ástæðum hefur einkavæðingin í greininni stoppað og besta dæmið um það er líklegast eftirlit með vinnuvélum. Það eru þrjú einkafyrirtæki sem skoða hvern einasta bíl á landinu, en okkur er ekki treyst fyrir vinnuvélunum.“

Orri segir í raun ekkert standa í vegi fyrir því að fyrirtæki á borð við Frumherja geti sinnt eftirliti á öðrum sviðum. „Við störfum eftir alþjóðlegum gæðastöðlum og út frá hverjum staðli er skrifuð hand- bók. Það eru til alþjóðlegir staðlar fyrir skip og bíla, en einnig fyrir egg og grænmeti svo eitthvað sé nefnt. Allt byggir þetta á öryggissjónarmiðum og við höfum náð góðum árangri í til dæmis bifreiðaskoðunum, skipaskoðunum og rafmagnsskoðunum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .