*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 16. febrúar 2020 13:09

Einkageirinn stýri þróuninni

Umhverfismál eru fyrst núna að koma inn sem eins konar fjárhagsleg stærð í rekstri fyrirtækja, að sögn framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.

Sveinn Ólafur Melsted
„Það sem við vildum gera með þessu þingi er að upplýsa og fræða um þau tækifæri sem til staðar eru og setja umhverfis og loftslagsmál af alvöru á dagskrá í íslensku viðskiptalífi.“
Árni Sæberg

Ásta S. Fjeldsted hefur verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands í þrjú ár. Eitt af hennar fyrstu verkefnum sem framkvæmdastjóri ráðsins var að marka stefnu þess til næstu fjögurra ára í samstarfi við stjórn Viðskiptaráðs. Afrakstur þeirrar vinnu voru hinar svokölluðu framtíðarlinsur Viðskiptaráðs, sem hver um sig einblínir á mikilvæga þætti í viðskiptaumhverfinu; tæknibreytingar, leiðtogahæfni, umhverfismál og alþjóðlegt samhengi viðskipta. Á hverju ári á fjögurra ára tímabili er ein linsanna tekin fyrir og sett í fókus á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs. Í ár var röðin komin að umhverfislinsunni, sem er vel við hæfi enda hafa umhverfismál sjaldan eða aldrei verið jafn mikið í umræðunni og undanfarin misseri.

„Þetta er að sumu leyti eins og að leggjast í kosningabaráttu að móta og marka stefnu til fjögurra ára fyrir ráðið. Á fyrsta þinginu árið 2017 var tæknilinsan í brennidepli og á því næsta var einblínt á mannauðsmál og leiðtogahæfni. Þriðja linsan sem sett var á dagskrá er umhverfislinsan, sem er umfjöllunarefni nýliðins Viðskiptaþings. Umhverfismál hafa ekki verið fyrirferðarmikil og í raun aldrei komist formlega á dagskrá í 103 ára sögu Viðskiptaráðs, enda kannski ekki langt síðan umhverfismál þóttu ekki koma viðskiptalífinu beint við. Ég er því stolt af stjórn ráðsins að hafa samþykkt að gera umhverfis- og loftslagsmálin að einni af lykiláherslum Viðskiptaráðs," segir Ásta.

„Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa en aðsókn að Viðskiptaþingi hefur aldrei verið meiri og það eru margir aðilar forvitnir og vilja vita meira um þessi mál út frá sjónarhóli atvinnulífsins og fyrirtækjanna. Það er í raun fyrst nú sem við virðumst almennilega tilbúin til að ræða þessi mál sem ákvörðunarbreytu í rekstri fyrirtækja enda kannski ekki fyrr en nýverið sem fyrirtæki fóru að huga almennilega að aðgengi og birtingu upplýsinga er varða umhverfismál. Það sem við vildum gera með þessu þingi var að upplýsa og fræða um þau tækifæri sem til staðar eru og setja umhverfis- og loftslagsmál af alvöru á dagskrá í íslensku viðskiptalífi," bætir hún við.

Umhverfismál hluti af áhættustýringu

Að sögn Ástu eru umhverfismál fyrst núna að koma inn sem eins konar fjárhagsleg stærð í rekstri fyrirtækja. „Þá í þeim skilningi að þetta er áhættustýring upp á framtíðina. Ef fyrirtæki huga að kolefnisfótspori sínu og umhverfisáhrifum, bæði inni í fyrirtækinu og í gegnum virðiskeðju sína, eru þau að koma í veg fyrir að lenda úti í horni í framtíðinni, að lúta í lægra haldi fyrir öðrum fyrirtækjum sem hafa tekið þessi mál föstum tökum og verið vakandi fyrir áhrifum sínum á samfélagið og þróun umhverfismála almennt. Hvert lítið spor í fjárfestingum getur haft áhrif síðar meir og fólk áttar sig betur og betur á því. Ég trúi því að einkageirinn og fyrirtækin muni stýra þessari þróun með miklu markvissari hætti og hraðar heldur en tilmæli frá stjórnvöldum gera."

Ásta segir að Viðskiptaráð hafi með þinginu viljað standa fyrir uppbyggilegri umræðu um meðvitaðar fjárfestingar og aukna verðmætasköpun sem lágmarka eða skilja ekki eftir sig kolefnisfótspor.

„Erlendir sérfræðingar héldu erindi á þinginu, sem og innlendir. Yfirskrift þingsins var: Á grænu ljósi, sem er skírskotun í það að okkur er ekki til setunnar boðið, þetta er leiðin áfram - við þurfum að hyggja að áframhaldandi vexti og framþróun í landinu sem mun grundvallast á grænum fjárfestingum og nýsköpun. Loftslagsváin er áskorun til okkar sem samfélags og við þurfum að standa saman um að skila okkar framlagi til betra ástands í heiminum. Ísland stendur að mörgu leyti vel að vígi en betur má ef duga skal - við erum enn sú þjóð sem mengar hvað mest á hvern einstakling í Evrópu. Til að leggjast í raunverulegar aðgerðir þarf fjármagn - og hver eru betur í stakk búin til að virkja það og fara skynsamlega með það, en einmitt fjárfestar, fjármálageirinn og atvinnulífið allt."

Nánar er rætt við Ástu í sérblaði um Viðskiptaþing sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér