„Hlutföll í atvinnuauglýsingum eru að breytast. Ríkið og bankarnir áttu meirihluta af atvinnuauglýsingum rétt eftir hrun. Nú er einkageirinn að lifna við,“ segir Hrannar Helgason, sölu- og markaðsfulltrúi auglýsingadeildar Fréttablaðsins.

Atvinnuhluti Fréttablaðsins var stór um liðna helgi, einar sextán síður og mikið auglýst í sérhæfð störf - þar á meðal var auglýst á nýjan leik eftir forstjóra Bankasýslu ríkisins.

Hrannar segir síðufjölda blaðsins um síðustu helgi með því mesta eftir hrunið þótt einstaka blöð hafi farið upp í 18 til 20 síður.

Hann vill ekki segja til um hvort fleiri fyrirtæki séu að auglýsa eftir fólki nú en áður. Ekki megi útiloka að hlutfallið hafi breyst, þ.e.a.s. fleiri fyrirtæki auglýsi eftir störfum á síðum Fréttablaðsins nú en í öðrum blöðum áður.