Þungavigtarmenn í bresku verkalýðshreyfingunni gagnrýndu harkalega lága skatta og skort á gegnsæi varðandi starfsumhverfi þeirra einkahlutafélaga sem sérhæfa sig í yfirtökum og uppstokkunum á fyrirtækjum. Þessi gagnrýni kom fram á fundi nefndar sem var skipuð til þess að kanna starfsumhverfi einkahlutafélaga í gær.

Jack Dromey, aðstoðarframkvæmdastjóri Unite verkalýðshreyfingarinnar, sagði á fundinum að skuldsettar yfirtökur bitnuðu oft harkalega á starfsfólki þeirra fyrirtækja sem tekin eru yfir og gagnrýndi jafnframt skattalega meðferð þeirra. Mikill styr hefur staðið um slík fyrirtæki að undanförnu í Bretlandi og krefjast margir breytinga á skattaumhverfi þeirra.