Þann 1. júlí næstkomandi mun Einkaleyfastofan taka upp heitið Hugverkastofan, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Lög um heiti Einkaleyfastofunnar voru samþykkt á Alþingi í gær, 2. maí 2019. Í tilkynningunni segir að með nýju heiti gefst skýrari mynd af starfsemi stofnunarinnar og betur komið til móts við þarfir íslensks iðnaðar og viðskiptalífs.

Að sögn Borghildar Erlingsdóttur, forstjóra Einkaleyfastofunnar, mun breytingin fyrst og fremst gera stofnuninni betur kleift að auka vitund um hugverkaréttindi hér á landi og styðja betur við íslenska nýsköpun, iðnað og rannsóknar- og þróunarstarfsemi. „Hugverk spila stórt hlutverk í viðskiptum, iðnaði og nýsköpun í dag og eru oft helstu verðmæti fyrirtækja. Verndun hugverka skiptir þar lykilmáli til að ná árangri. Einkaleyfastofan hefur á síðastliðnum árum aðlagað starfsemi sína og þjónustu að þörfum íslenskra fyrirtækja og undir heitinu Hugverkastofan vonumst við til að geta enn betur sinnt þörfum þeirra og aðstoðað þau við að skapa og halda utan um sín verðmæti", segir Borghildur.

Starfsemi og hlutverk stofnunarinnar mun samkvæmt tilkynningunni ekki breytast en lagabreytingin feli einungis í sér breytingu á heiti stofnunarinnar og vísunum í hana í ýmsum lögum.

Breytingin sé í takt við Hugverkastefnu fyrir Ísland 2016-2022 og stefnu Einkaleyfastofunnar fyrir árin 2018 - 2021 sem var unnin í samráði við hagsmunaaðila stofnunarinnar. Breytingin sé einnig í takt við þróun erlendis en á síðastliðnum árum hafi ýmsar einkaleyfa- og vörumerkjastofur breytt um nafn til að lýsa starfsemi sinni betur.