Einkaneysla dróst saman í Bandaríkjunum í júní um 0,2% samkvæmt opinberum tölum. Verðbólga í júní var 0,8% og hefur ekki verið meiri í einum mánuði síðan hún var 1,0% í febrúar 1981.

Aukning varð á nýjum pöntunum til bandarískra verksmiðja í mánuðinum, um 1,7%. Það er mun meiri aukning en spáð hafði verið fyrir um, en eitt af því sem vóg þungt inni í tölunni var 16,9% aukning pantana á tækjum og tólum til hernaðar.

Næsti stýrivaxtaákvörðunardagur bandaríska seðlabankans er á morgun, þriðjudag, og er búist við að vextir haldist óbreyttir.

Ákvörðunin verður þó erfið vegna vaxandi verðbólgu sem hefur dregið úr áhrifum skattaendurgreiðslna bandarískra stjórnvalda upp á 168 milljarða Bandaríkjadala.

Þetta kemur fram í frétt BBC.