Tölur um einkaneyslu í júlí í Bandaríkjunum voru birtar í dag og jókst einkaneyslan um 0,8% á milli mánaða eftir 0,4% samdrátt í júní. Sérfræðingar höfðu spáð 0,7% aukningu í einkaneyslu. Aukin einkaneysla í júlí skýrist aðallega af aukinni eftirspurn eftir bílum og öðrum varanlegum neysluvörum. Á sama tíma voru birtar tölur um launahækkanir en þau hækkuðu um 0,1% í mánuðinum sem er minnsta hækkun síðan í nóvember 2002, en sérfræðingar bjuggust við að laun myndu hækka um 0,5%.

Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans er bent á að til þess að viðhalda vextinum í einkaneyslunni á seinni helmingi ársins þarf vinnumarkaðurinn að taka við sér og laun að hækka. Sérfræðingar spá því að störfum hafi fjölgað um 150.000 í ágúst samkvæmt Bloomberg en tölur þess efnis verða birtar á föstudaginn. Ef spáin rætist verður þetta mesta fjölgun starfa í þrjá mánuði en til samanburðar fjölgaði störfum um 32.000 í júlí.