Samkvæmt greiningu Landsbankans sem birt var í dag jókst einkaneysla um 4,9% á fyrsta ársfjórðungi og segir bankinn það skýrast fyrst og fremst af þeim miklu launahækkunum sem samið var í upphafi árs og lok síðasta árs.

Bankinn segir þó að margir séu einnig að ganga á þann sparnað frá tímum faraldursins þegar kaupmáttur jókst og tækifæri til neyslu voru takmörkuð vegna ferða og samkomutakmarkana.

„Vísitala neysluverðs hefur hækkað álíka mikið og vísitala launa á síðustu tólf mánuðum og kaupmáttur því staðið nokkurn veginn í stað. Vaxtahækkanir ættu að hamla neyslugetu þeirra sem hafa lán með fljótandi vöxtum og eins hefta neysluvilja þeirra sem hafa hug á því að nýta betri ávöxtun sparifjár.“

Það er óvíst hvort einkaneyslan haldi áfram að aukast jafn mikið og hún gerði á fyrsta ársfjórðungi, en einkaneysla hefur nú aukist umfram kaupmátt átta ársfjórðunga í röð. Landsbankinn segir að þar sem launavísitalan hafi hækkað um 1,6% í apríl megi búast við því að launahækkanir ýti undir einkaneysluna á öðrum ársfjórðungi líka.