Velta í sérvöruverslun hefur aukist á milli ára samkvæmt tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar og er það til marks um að einkaneyslan sé að aukast í íslenska hagkerfinu að mati Greiningar Íslandsbanka. Þá hafa nýlegar tölur um greiðslukortanotkun bent til þess sama.

Fram kemur í frétt Greiningar að þrátt fyrir þetta sé velta í dagvöruverslun þó ekki mikið meiri í fyrra en þó megi greina 3% aukningu að raunvirði. „Ekki er ólíklegt að veðurfarið í maí hafi sett strik í reikninginn í sölu á mat og drykk í mánuðinum og að aukningin í dagvöruverslun hefði verið meiri ef ekki hefði verið svona óvenju kalt,“ segir í frétt Greiningar.