Greiningardeild Arion banka spáir því að heldur dragi saman í hagvexti á næsta ári. Spá bankans gerir ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 4,2% en lækki niður í 2,6% árið 2018. Þá er reiknað með að hagvöxtur verði 2,7% árið 2019 og 2,3% árið 2020. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá deildarinnar en þar segir að einkaneysluvöxtur verði drifkraftur hagvaxtar á næstu árum.

Spáin gerir ráð fyrir að útflutningur vaxi hægar en innflutningur og töluvert dragi saman í viðskiptaafgangi á spátímanum 2017-2019. Sterk króna og mikill kaupmáttur mun styðja við áframhaldandi innflutningsvöxt en vöxtur í ferðaþjónustu dragast saman að því er kemur fram í spánni.

Vöxtur fjárfestingar hefur verið mikill á liðnum árum en reiknað en fjárfesting óx um 22,8% árið 2016 og búist er við 7,8% vexti hennar í ár. Strax á næsta ári muni þó draga mikið úr vextinum og fjárfesting aðeins vaxa um 1,3% á næsta ári samkvæmt þjóðhagsspá greiningardeildar.

Þá er búist við því að íbúðamarkaður nái jafnvægi með mikilli fjárfestingu í íbúðauppbyggingu. Búist er við áframhaldandi hækkunum á markaðnum en að þær verði talsvert hægari en í ár.

Verðbólga mælist nú 1,9% í dag á ársgrundvelli en greiningardeildin spáir því að hún hækki um 0,5 prósentustig árið 2018 upp í 2,4% og hækki aftur árið 2019 upp í 3,3% en lækki svo lítillega árið 2020. Ennfremur muni atvinnuleysi vera í kringum 3% 2018-2020.

Þá bendir greiningardeildin á að 78 kjarasamningar losni á vinnumarkaði á næsta ári og þar séu blikur á lofti. Launahækkanir þ.e. aukning nafnlauna verði 6,2% árið 2018, 5,1% árið 2019 og 3,9% 2020. Miðað við spá um verðbólgu og launahækkanir mun vöxtur raunlauna því verða meiri en framleiðniaukning á tímabilinu.