Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann minnkaði um 0,7% milli áranna 2012 og 2013. Að öllu jöfnu ættu ráðstöfunartekjur heimilanna að duga til að fjármagna einkaneyslu þeirra auk þess sem þau geti lagt eitthvað til hliðar í sparnað. Einkaneyslan hefur þó verið meiri en ráðstöfunartekjur leyfa og til lengri tíma litið var það einungis á samdráttarárunum 2008 og 2009 að tekjur voru meiri en neysluútgjöldin þótt ekki hafi miklu munað. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Í Hagsjánni segir að ein skýring á því að einkaneyslan sé til lengri tíma litið meiri en ráðstöfunartekjur gæti verið að raunverulegar tekjur heimilanna séu vanmetnar og séu ekki allar gefnar upp til skatts. Á síðustu árum hafi aukin einkaneysla að einhverju leyti verið fjármögnuð með úttekt sparifjár af innlánsreikningum. Þar að auki hafi ýmsar skuldalækkunaraðgerðir og úttekt séreignarsparnaðar eflaust haft áhrif.