Með því að auka vægi einkarekstrar í mennta- og heilbrigðisgeiranum væri hægt að auka jafnrétti á vinnumarkaðnum. Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á ráðstefnunni „Aukið jafnrétti – aukin hagsæld“ sem haldin var á Hilton Hótel Nordica síðastliðinn þriðjudag. Í erindi Þorsteins kom fram að vægi einkaframtaksins er afar lítið hér á landi á sviði mennta- og heilbrigðismála en jafnframt eru þessi svið með hátt hlutfall kvenna í störfum.

„Könnun sem við létum gera sýndi að það er ekki síðri áhugi hjá ungum konum en körlum að hefja eigin rekstur. Það er ekkert sjálfgefið að það sé beint orsakasamhengi á milli aukins einkareksturs á þessum sviðum og minni launamunar kynjanna. Við lítum á þetta sem leið til að fjölga tækifærum fyrir konur í sjálfstæðum atvinnurekstri, sérstaklega þegar litið er til fjölda kvenna sem hafa menntað sig á þessumsviðum,“ segir Þorsteinn.