Stefán E. Matthíasson, formaður Samtaka heilbrigðisfyrirtækja, og Jón Gauti Jónsson, framkvæmdastjóri Domus Medica, segja rekstur heilbrigðisþjónustu vera eins og hvern annan atvinnurekstur og að honum sé ekki endilega best fyrir komið hjá hinu opinbera.

Þó svo að framboð sé á einkarekinni sérfræðiþjónustu hjá fyrirtækjum á borð við Lækningu og Domus Medica, að ekki sé minnst á tannlækningar og sjúkraþjálfun, er hið opinbera fyrirferðarmikið í heilbrigðisrekstri. Ríkið rekur eina sjúkrahúsið á höfuðborgarsvæð­inu. Um 93% heilsugæslustöðva á landinu eru í opinberum rekstri og aðeins 6% heimilislækna eru sjálfstætt starfandi.

„Sömu lögmál gilda á þessum markaði, hvort sem um er að ræða heilsu eða eitthvað annað. Kerfið er ekki lagað að þörfum og óskum sjúklingsins ef það er allt á könnu ríkisins. Það þarf að tryggja valfrelsi neytenda, auð­velda samanburð í þjónustu og rekstrarkostnaði og sjá til þess að hingað komi vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem við­ heldur þekkingarstiginu,“ segir Stefán.

„Það þarf að bjóða út reksturinn í heilsugæslunni og hluta reksturs Landspítalans, og úthýsa þjónustu sem lagt getur grunn að samkeppnismarkaði,“ bætir Jón Gauti við.

„Þessu er algjörlega snúið á haus þegar því er haldið fram að sérfræðilæknar vilji bara ná öllu því sem er arðbært frá Landspítalanum. Það er mikil áhætta í því fólgin að ein stofnun færist of mikið í fang og Landspítalinn á að losa sig við það sem aðrir geta sinnt betur, líkt og Vegagerðin gerði á sínum tíma,“ segir Stefán.

Eftirbátur Norðurlandanna

Ólík rekstrarform skila mismunandi árangri, og benda Stefán og Jón Gauti á að það sé himinn og haf á milli framleiðni í einkarekstri og opinberum rekstri í heilbrigðiskerfinu.

Komur til sérgreinalækna á Íslandi – til einkarekinnar starfsemi á þjónustusamningi við ríkið – nema um þriðjungi af heildarfjölda þeirra sem koma til lækna á öllu landinu. Þá var 6-7% af heilbrigðisútgjöldum hins opinbera varið til málaflokksins í fyrra. Til samanburð­ ur nemur rekstur Landspítalans um 37% af útgjöldunum. Kostnaður ríkisins vegna sérfræði­þjónustu er því lágt hlutfall af umfanginu, eða um 9 milljarðar á ári, en Landspítalinn kallar eftir um 12 milljörðum til viðbótar til að geta sinnt nauðsynlegri þjónustu.

Enn fremur sýna samantektir Læknafélags Íslands að þegar heildarkostnaði sérfræði­þjónustunnar er skipt niður á fjölda þeirra sem komu til sérgreinalækna, er kostnaðurinn nánast sá sami og þegar farið er til heilsugæslulæknis á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Þannig er sérfræðiþjónustan ódýr og hagkvæmur kostur fyrir ríkið,“ segir Stefán.

Á Norðurlöndunum hefur heilsugæsla í auknum mæli verið færð yfir til einkaaðila.

„Heilsugæslan í Danmörku hefur öll verið einkarekin um áratuga skeið. Í Noregi er hún 93% einkarekin eftir að norska ríkið bauð hana út árið 2001. Svíar fylgdu í kjölfarið með blöndu af einkarekstri og opinberum rekstri. Það gengur svo vel þar að vinstristjórnin ætlar ekki að breyta kerfinu. Finnar tóku þetta upp fyrir nokkrum mánuðum og ætla að ganga enn lengra.

Reynslan á Norðurlöndunum er því mjög góð. Það hefur verið talað um að það þurfi að að­ laga íslenska heilbrigðiskerfið að norrænu velferðarkerfi, en stað­ reyndin er sú að við erum eina Norðurlandaþjóðin sem er ekki búin að úthýsa heilsugæslunni til einkaaðila. Þessi þróun átti sér stað vegna þess að mönnum fannst ekki nógu vel farið með fjármuni. Óánægja var með þjónustuna og sjúklingar vildu frelsi til að velja. Hljómar þetta ekki kunnuglega?“ segir Stefán.

Þess má geta að verið er að reisa tvær nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar á Bíldshöfða og Urðarhverfi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .