Einkaréttur ríkisins á póstþjónustu verður að líkindum afnuminn í byrjun árs 2015. Vinna stendur nú yfir í innanríkisráðuneyti að heildstæðu lagafrumvarpi um póstþjónustu, þar sem einkarétturinn verður meðal annars afnuminn. Áætlað er leggja fram frumvarp þess efnis í janúar á næsta ári.

Eins og sakir standa hefur íslenska ríkið einkarétt á póstþjónustu vegna bréfa allt að 50 g að þyngd, svo framarlega sem burðargjaldið fyrir bréfið er minna en þrisvar sinnum lægsta burðargjald sem gildir fyrir venjuleg bréf innanlands.

Bannað með evróputilskipun

Ástæða þess að málið er í vinnslu í innanríkisráðuneyti er sú að samkvæmt evróputilskipun 2008/6/EB verður aðildarríkjum ESB og EES óheimilt að viðhalda einkarétt ríkisins á tiltekinni póstþjónustu, eða mismuna fyrirtækjum með útgáfu sérleyfa eða öðrum lagalegum aðgangshindrunum. Þetta hefur komið í veg fyrir samkeppni á markaði með slík bréf, sem Evrópusambandið telur andstætt hagsmunum þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .