Til stendur að opna sérhæft sjúkrahús á Reykjanesi en Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Health hafa undirritað viljayfirlýsingu um að byggja sameiginlega upp heilsutengda starfsemi í sjúkrahúsi Kadeco á Ásbrú í Reykjanesbæ auk samnings um nýtingu á íbúðareignum.

Á kynningarfundi fyrir fagfjárfesta í gær kom fram að markmið Iceland Health verður að byggja hágæðasjúkrahús sem uppfyllir allar alþjóðakröfur. Boðið verður upp á liðskipta- og offituaðgerðir sem og endurhæfingu eftir þessar aðgerðir. Þá verður boðið upp á endurhæfingu fyrir hjartasjúklinga og atferlismeðferðir til meðferðar á offituvanda.

„Á þeim tímum sem við lifum núna er mikilvægt að svona verkefni gangi vel,“ segir Róbert Wessman í samtali við Viðskiptablaðið.

„Við glímum við mikið atvinnuleysi, við þurfum að fá erlendan gjaldeyri inn í landið og í leiðinni að bæta ímynd landsins. Við gerum ráð fyrir um 300 störfum, þarna fáum við inn erlendan gjaldeyri og það bætir ímynd landsins að geta boðið upp á þessa þjónustu.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag en auk þess er að finna úttekt um það sem hægt er að kalla heilbrigðistúrisma sem er vaxandi iðnaður út um allan heim. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .