Gert er ráð fyrir að starfsemin einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ geti skilað allt að 10.000 ferðamönnum hingað til lands á ári hverju og yfir 10 milljörðum í gjaldeyristekjur. Gert er ráð fyrir því að með hverjum sjúklingi komi einn til tveir gestir og er því einnig gert ráð fyrir 200 herbergja hóteli, veitingastöðum og annarri afþreyingu  í byggingaklasanum.

Sigríður Þorsteinsdóttir er stjórnarformaður PrimaCare, Gunnar Ármannsson er framkvæmdastjóri og Finnur Snorrason læknir hefur yfirumsjón með lækningaþætti verkefnisins.  PrimaCare er í samstarfi við þrjú virt, alþjóðleg fyrirtæki: Shiboomi, sem sérhæfir sig í frumkvöðla- og markaðsráðgjöf, Skanska, sem er eitt stærsta byggingarverktakafyrirtæki í heimi og Oppenheimer Investments AG, virt svissneskt fjármögnunarfyrirtæki. Þá standa yfir viðræður við leiðandi íslensk fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu þar á meðal Orkuhúsið.

Mjaðmaliða- og hnjáaðgerðir Markmiðið er að setja á fót spítala sem sérhæfir sig í mjaðmaliða- og hnjáaðgerðum. Stærsti hluti sjúklinganna mun að öllum líkindum koma frá Bandaríkjunum. Samkvæmt upplýsingum frá PrimaCare eru nú um milljón Bandaríkjamanna á biðlista eftir aðgerðum sem þessum og eru að hefjast  viðræður við bandarísk tryggingafélög og sjúkrahús um að taka á móti sjúklingum þaðan.