Í kjölfar umtalsverða erfiðleika verslunarkeðjunnar bresku Tesco eftir að hún ofmat hagnað sinn um 250 milljónir breskra punda í hálfs árs uppgjöri sínu hefur hún lagst í töluverðan niðurskurð. Einn liður í þeim niðurskurði er sala á einkaþotu fyrirtækisins en hún er af gerðinni Gulfstream G550 og er til sölu fyrir 34,95 milljón bandaríkjadollara eða um fjóra milljarða íslenskra króna.

Samkvæmt bæklingi sem birtur hefur verið í tengslum við sölu vélarinnar kemur fram að vélin er 2007 árgerð og tekur fjórtán farþega í sæti. Vélin er búin öllum helstu þægindum sem talin eru sjálfsögð í einkaþotum af svipaðri stærðargráðu en inni í vélinni er meðal annars baðherbergi með sturtu.