*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 20. maí 2013 17:30

Einkaþotur íslenskra athafnamanna

Fyrir bankahrun áttu nokkrir af efnuðustu íslensku athafnamönnunum einkaþotur.

Ritstjórn

Margir íslenskir athafnamenn keyptu einkaþotur eða höfðu afnot af slíkum vélum á árunum fyrir hrun íslensku viðskiptabankanna. Að auki var einkaþotuútleigufyrirtækið Ice-Jet með þrjár þotur í sínum flota og nýttu sér bæði íslenskir og erlendir aðilar þjónustu fyrirtækisins. 

Fjallað er um einkaþotur, og þar á meðal einkaþotur íslenskra auðmanna, í sérstöku fylgiblaði Viðskiptablaðsins um flug sem kom út sl. fimmtudag.

Eftir því sem næst verður komist var dýrasta vélin í flota auðmanna vél Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem var frönsk af gerðinni Dassault Falcon 2000EX og kostar í dag í kringum 33-34 milljónir dala. Kaupverð vélarinnar var um 27-28 milljónir dala og var vélin skráð í eigu Baugs í Bretlandi. 

Hér fyrir neðan má sjá einkaþotur nokkurra þeirra einstaklinga sem voru hvað mest áberandi í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun.

 

Einkaþota Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af gerðinni Dassault Falcon 2000EX.

 

Björgólfur Thor Björgólfsson

Vél Björgólfs Thors Björgólfssonar athafnamanns var af gerðinni Bombardier Challenger 604. Vél Björgólfs var smíðuð árið 1999. Ætla má að kaupverð vélarinnar hafi verið í kringum 20 milljónir dala.

Björgólfur Guðmundsson

Vél Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi formanns bankaráðs Landsbankans, var af gerðinni Bombardier Challenger CL-600S sem var framleidd árið 1982. Vélin var um tíma í eigu bandaríska bankans Wells Fargo, allt fram til ársins 2006.

Karl Wernersson

Vél Karls Wernerssonar, nú framkvæmdastjóra og eiganda Lyf og heilsu en áður aðaleiganda Milestone og Sjóvá, var af gerðinni Bombardier Challenger 604.

Pálmi Haraldsson

Pálmi Haraldsson á að baki langa sögu í flugheiminum en fimm flugfélög í hans eigu hafa orðið gjaldþrota. Þegar Pálmi var fyrirferðarmikill í flugbransanum flaug hann um á Bombardier Challenger 604 sem smíðuð var árið 2002. Hún bar einkennistafina VP-CEO.

Ítarlega er fjallað um einkaþotur í blaðinu Flug, sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.