*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Innlent 16. september 2019 15:52

Einkavæða eigi bankana

Höfundar skýrslu OCED um Ísland hvetja stjórnvöld til að halda áfram undirbúningi á sölu bankanna.

Ritstjórn
Íslenska ríkið fer með allt hlutafé í Íslandsbanka og 90% af hlutaféi Landsbankans.

Alþjóða efna­hags- og fram­fara­stofn­unin (OECD) hvetur íslensk stjórnvöld til þess að halda áfram að undirbúa einkavæðingu bankanna. Þetta er meðal þeirra ráðlegginga sem OECD veitir íslenskum stjórnvöldum til í nýrri skýrslu stofnunarinnar um Ísland. 

Í söluferlinu þurfi stjórnvöld að tryggja að bankarnir komist í traustar hendur og örugga stjórn en þannig megi lágmarka áhættu til framtíðar. 

Skýrsluhöfundar segja að svo virðist sem íslenska bankakerfið sé traust; bankarnir séu vel fjármagnaðir, lausafjárstaða þeirra sé sterkari en evrópskt regluverk geri kröfur um og færri lán séu í vanskilum. Álagspróf Seðlabankans gefi til kynna að bankakerfið get vel staðið af sér mikinn samdrátt í ferðaþjónustu, en útlán til fyrirtækja í ferðaþjónustu nemi um 10% af heildarútlánum í bankakerfinu.  

Þrátt fyrir að skuldir heimilanna séu lágar þá séu þær að aukast. Þá hafi fasteignaveð bæði íbúða- og atvinnuhúsnæðis hækkað hratt og mun hraðar en raunlaun. Yfirvöld ættu því að vera vakandi og reiðubúin til að grípa til aðgerða ef merki um kerfisáhættu gera vart um sig.