Það vakti athygli margra þegar hópur innlendra og erlendra fjárfesta keypti 5% hlut í Símanum stuttu fyrir skráningu fjarskiptafélagsins á markað. Hópurinn er leiddur af hollenska fjárfestinum Bertrand Kan sem hefur yfir 25 ára reynslu úr heimi fjarskiptabransans. Hann segir að einkavæðing Símans hafi verið sérstaklega vel heppnuð en hann var sérstakur ráðgjafi Morgan Stanley við einkavæðingarferlið árið 2005.

Spurður að því hvernig hann lítur á einkavæðingu Símans árið 2005 og hvort hún hafi verið árangursrík segir Kan að hún hafi heppnast mjög vel að hans mati. „Það er ekki hægt að gera ráð fyrir öllu og enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir hann.„Það sem vakti sérstaka athygli mína þegar ég vann að þessari einkavæðingu, og ég hef unnið að þeim mjög mörgum, var hversu einstök hún var. Ég hef aldrei unnið að einkavæðingu sem var jafn skipulögð og öguð og einkavæðing Símans. Venjulega er sett ákveðin tímaáætlun við einkavæðingu fyrirtækja sem fer úr skorðum í annarri viku, það er alveg gefið. Þetta tilvik var algjörlega sérstakt vegna þess að allar áætlanir stóð­ust. Við funduðum með einkavæðingarnefnd einu sinni í viku og strikuðum reglulega yfir allt sem átti að vera búið á þeim tíma. Á endanum vorum við að­ eins viku á eftir áætlun í um níu mánaða ferli. En þú spurðir hvort ég teldi einkavæðinguna vera árangursríka. Ég tel svo vera. Markmiðið á þeim tíma var að selja fyrirtækið og fá sem hæst verð fyrir það. Mikil umræða var um það hvort selja ætti Símann til almennings eða einkafyrirtækis. Á endanum ákváð­ um við að selja fyrirtækið til einkaaðila með ákvæði um almenningsútboð. Þremur árum síðar höfðu aðstæður breyst töluvert, eins og þekkt er sem breytti allri þeirri áætlun sem lögð var upp með þremur árum fyrr.“

Hlutafjárútboðið árið 2008 gekk ekki sem skyldi.

„Nei, einmitt. Þannig fór það á endanum og auðvelt eftir á að líta til baka og segja að almenningsútboðið árið 2008 hafi verið misheppnað. En við þaulhugsuðum ferlið, tókum ákvörðun og ég tel að miðað við aðstæður á þessum tíma hafi hún verið rétt.“

Nánar er rætt við Bertrand Kan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .