Framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefur óskað eftir skýringum frá Landsbankanum vegna þess að tilkynnt var í Kauphöllinni í liðinni viku að bankinn hefði eignast meira en 5% í Og Vodafone.

Rök hníga að því að kaupin séu í andstöðu við trúnaðarsamning sem fjárfestahópar gerðu við einkavæðingarnefnd vegna sölu Landssímans. Samkvæmt samningnum mega hvorki bjóðendur sjálfir né ráðgjafar þeirra eiga meira en 5% hlut í keppinauti Símans. Landsbankinn er ráðgjafi fjárfestahóps sem í eru Burðarás, Tryggingamiðstöðin, Kaupfélag Eyfirðinga, Talsímafélagið og Ólafur Jóhann Ólafsson.

Hafa ber í huga að í tilkynningu til Kauphallarinnar kom fram að Landsbankinn hefði gert framvirka samninga um sölu á samtals 3,1% af heildarhlutafé Og Vodafone. Eftir þá sölu ætti bankinn liðlega 2% í félaginu.

Jón Sveinsson, formaður einkavæðingarnefndar, segir að einkavæðingarnefnd hafi óskað eftir skýringum hjá Landsbankanum og bíði eftir viðbrögðum þaðan.