Bjarni Benediktsson er aðlaðandi, kurteis og fágaður og lítur vel út að mati Hallgríms Óskarssonar, ímyndunar- og samskiptaráðgjafa. Viðskiptablaðið fékk Hallgrím til að meta stöðu og ímynd formanna stjórnmálaflokkanna.

Bjarni þarf hins vegar að mati Hallgríms að slípa talanda sinn betur því hann þyrfti að geta náð til fleiri þegar hann talar. „Hann á það til að tala í of mörgum orðum og verður þannig ögn ómarkviss. Hann þyrfti að verða hnitmiðaðri í orðavali, þó ekki eins og vél heldur að tala meira frá hjartanu. Fyrir því er mjög mikil eftirspurn. Það sást í viðtalinu fræga á RÚV rétt fyrir kosningar, þar sem hann var mun einlægari en áður, hvað það hafði mikil áhrif þegar hann talaði beint frá hjartanu.“

Hallgrímur segir að það hafi jákvæðari áhrif þegar Bjarni er einlægur heldur en þegar aðrir stjórnmálaleiðtogar verða einlægir vegna þess að það sé svo mikil óuppfyllt þörf hjá stórum hluta þjóðarinnar að Bjarni sé einlægur. „Það má segja að einlægnin gæti verið eitt helsta vopn Bjarna ef hann fer að nýta sér það í meiri mæli en áður. Varðandi það hvort fólk trúi því að Bjarni hafi getu til að stýra þjóðarskútunni þá kemur viðskiptaímynd Bjarna sér vel því fólk hefur góða trú á að hann geti stýrt viðamiklum málum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .