Í síðustu viku var tilkynnt að vinna væri hafin við sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins og að hefja ætti endurskoðun lagaumgjarðar um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit.

Vísað var í skýrslur sérfræðinga, sem „bregði birtu á ýmis viðfangsefni og tækifæri til úrbóta við framkvæmd peningastefnu og umgjörð þjóðhagsvarúðar og fjármálaeftirlits,“ nú síðast í júní og er þar átt við skýrslu starfshóps um endurmat á peningastefnu.

Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins tók ákvörðunina en í henni eiga fast sæti þau Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, menntaog menningarmálaráðherra. Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðuneytið en Fjármálaeftirlitið undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

„Þetta var okkar niðurstaða í nefndinni, nú erum við búin að fá allmargar skýrslur um þessi mál á undanförnum árum, nú síðast skýrslu Ásgeirs Jónssonar, Illuga Gunnarssonar og Ásdísar Kristjánsdóttur, þar sem þetta er lagt til. Síðan var þetta ítrekað í ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins núna síðast. Þannig að við viljum stefna að þessu,“ segir Katrín.

Mikilvægasti lærdómurinn af hruninu
Ásgeir Jónsson, lektor og deildarforseti hagfræðideildar Háskóla Íslands og formaður starfshópsins, segir þessa breytingu hafa legið í loftinu í svolítinn tíma enda flestir sérfræðingar sammála um nauðsyn hennar og þróunin erlendis almennt verið í þá átt. „Starfshópurinn lagði þetta náttúrlega til. Að vísu ekki að fara með Fjármálaeftirlitið í heilu lagi þarna inn heldur bara þjóðhagsvarúðarhlutann. Ég held það sé algert grundvallaratriði að einn aðili beri ábyrgð á fjármálakerfinu og þjóðhagsvarúð. Ég tel að það sé einn mikilvægasti lærdómurinn af hruninu. Að það sé einn aðili sem taki ábyrgð en ekki margir. Það er sú tillaga sem hefur komið fram aftur og aftur síðustu tíu ár, að það verði gert.“

Ásgeir segir augljós vandræði fylgja því að Seðlabankinn eigi að vera lánveitandi til þrautavara en á sama tíma skuli hann ekki vera sá aðili sem fylgist með efnahagsreikningi fjármálastofnana. „Það kom alveg skýrt í ljós við yfirtöku ríkisins á Glitni 2008 að Seðlabankinn hafði í raun eiginlega engar upplýsingar um eignagæði eða hvað bankinn var að gera. Ég sé ekki fyrir mér að það sé mögulegt fyrir Seðlabankann að þjóna sem lánveitandi til þrautavara nema hafa þessar upplýsinar,“ segir hann.

Fjármálaeftirlitið ekki brotið upp
Katrín segir allar tillögur starfshópsins undir en að skoðun á þeim sé mislangt á veg komin. „Það má segja að við séum búin að taka afstöðu til sumra þeirra, með endurskoðun á stjórnskipulaginu og sameiningu þessara stofnana, en aðrar tillögur eru kannski skemmra á veg komnar í okkar vinnu.“ Búið sé að ákveða að sameina stofnanirnar tvær og að það verði sameiginleg yfirstjórn yfir málaflokknum, hvernig sem það verði síðan útfært nánar. „Hvort sem þeir hafa talað fyrir sameiningu að hluta eða í heild þá er þessi hugmynd búin að koma ítrekað fram í ráðgjöf sérfræðinga. Við sjáum ekki fyrir okkur að brjóta Fjármálaeftirlitið upp, við leggjum áherslu á það, það er það mikil fagþekking innanhúss. Við teljum að það skapi sterkari einingu og þá samlegð sem við erum að leita eftir,“ segir hún.

Katrín sagði auk þess í viðtali við Ríkisútvarpið á sunnudaginn að ekki stæði til að fækka fólki eða veikja eftirlit með fjármálamarkaðnum með sameiningunni.

Ásgeir segir það mjög mikilvægt að sameinuð stofnun verði ekki í raun tvær stofnanir undir einu þaki, heldur verði almennileg samþætting á milli þeirra. „Þegar þú ert kominn með svona risastofnun eins og Seðlabankann með Fjármálaeftirlitið og öllu sem því fylgir, þá þarf líka að fara fram meiri valddreifing og meiri sérhæfing.“

Verkefnastjórn mótar tillögurnar
Einnig kom fram í tilkynningunni að skipuð hafi verið verkefnastjórn um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit. Formaður hennar er Benedikt Árnason hagfræðingur hjá forsætisráðuneytinu. Með honum sitja Tómas Brynjólfsson skrifstofustjóri efnahagsmála frá fjármálaráðuneytinu og Áslaug Árnadóttir lögmaður hjá Landslögum.

Til viðbótar eru svo þau Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, og Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri, tengiliðir við verkefnastjórnina. Að auki megi reikna með að það verði fjölmargir innan ráðuneytanna sem komi að verkinu.

„Verkefnastjórnin fær þetta verkefni og við fylgjumst með þessu. Við munum reyna að vinna þetta hratt, og við höfum átt gott samráð við bæði Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið í þessum aðdraganda og munum leggja áherslu á að allir fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í þessari vinnu,“ segir Katrín.

Benedikt tekur í sama streng og segir vinnuna fara fram í samráði við þær stofnanir sem um ræðir, auk fleiri aðila. „Lagafrumvörp af þessu tagi verða ekki unnin í tómarúmi. Það var ljóst að bæði Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið höfðu efasemdir og athugasemdir við margt sem laut að tillögunum í skýrslunni. Þau hafa bara komið því á framfæri og tekið virkan þátt í þessum undirbúningi. Nú þegar þetta starf er hafið er ekki annað að sjá en að allir aðilar séu að vinna að þessu af fullum krafti,“ segir Benedikt.

Vonast til að klára málið á næsta ári
Áformað er að vinnu verkefnastjórnarinnar ljúki í febrúar næstkomandi, og í kjölfarið hyggst Katrín leggja fram frumvarp um málið. „Á vormisseri legg ég fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabankann þar sem ég hyggst meðal annars leggja fram tillögur um að fara þá leið að hafa tvo aðstoðarseðlabankastjóra og einn aðalseðlabankastjóra, ásamt því að þessar stofnanir verði þá sameinaðar. Ég er að binda vonir við að ég geti lagt það fram í mars–apríl og málið klárist á næsta ári,“ segir hún að lokum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .