Berthold Albrecht einn af auðugustu einstaklingum í heimi lést á dögunum langt fyrir aldur fram. Hann var 58 ára. Auður Berthold Albrechts byggði á helmingi af Aldi-veldinu sem hann fékk í arf að föður sínum látnum fyrir einu og hálfu ári síðan. Faðir hans var Theo Albrecht, sem stofnaði verslanakeðjuna Aldi ásamt Karli bróður sínum. Þeir bræður voru um árabil á lista yfir auðugustu einstaklinga í heimi. Þegar Theo Albrecht lést í júlí árið 2010 var hann þriðji á lista yfir ríkustu menn Þýskalands og í sæti 31 á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir ríkasta fólk í heimi.

Albrecht-fjölskyldan lét lítið á sér bera og tranaði sér ekki fram í fjölmiðlum. Fram kemur í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um andlát Berthold Albrecht að hann var jarðsunginn í kyrrþey í síðustu viku. Bloomberg segir að tilkynnt hafi verið um málið í heilsíðutilkynningu í þýska blaðinu Handelsblatt í dag. Hvorki er þar greint frá því við hvaða aðstæður eiginmaður hennar lést né hver dánarorsökin var. Bloomberg segir hann þó hafa verið veikan um tíma.

Berthold Albrecht var fimm barna faðir og sat hann í stjórn Aldi-verslunarinnar.

Bloomberg segir að talið sé að auður Berthold Albrechts hafi numið 10,7 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 1.300 milljarða íslenskra króna. Það er álíka mikið og Icesave-kröfurnar hljóða upp á. Til samanburðar nam landsframleiðsla hér 1.630 milljörðum króna á síðasta ári.