Fjárfestirinn Peter Thiel var einn þeirra hluthafa Facebook sem seldu hluti sína í fyrirtækinu á dögunum. Thiel lagði Mark Zuckerberg til 500 þúsund dali árið 2004 þegar hann var að Facebook á laggirnar. Í skiptum fékk hann rétt rúman 10% hlut í Facebook. Thiel situr jafnframt í stjórn Facebook og hefur talsvert að segja um gang fyrirtækisins.

Samkvæmt samantekt Business Insider, sem vitnar til opinberra gagna um hreyfingu á hlutabréfum stórra hluthafa í skráðum félögum, seldi Thiel 20 milljónir hluta í Facebook í lok ágúst í gegnum nokkra sjóði sína fyrir samtals 396 milljónir dala, jafnvirði 48 milljarða íslenskra króna. Bréfin fóru á genginu 19,27 til 20,69 dalir á hlut. Erlendir fjölmiðlar hafa velt nokkuð vöngum yfir ástæðu þess að Thiel hafi ákveðið að selja bréfin. Ein pælingin er sú hvort hann sé svartsýnn á horfur fyrirtækisins.

Þetta er annað skiptið sem hann losar úr eignasafninu en hann seldi sömuleiðis bita úr sneiðinni þegar Facebook var skráð á markað í maí. Hann á nú eftir rétt rúma sex milljón hluti í Facebook.

Við skráningu Facebook á hlutabréfamarkað átti Thiel 43 milljónir hluta í fyrirtækinu. Hlutabréf félagsins fóru í fyrstu viðskiptunum á 38 dali á hlut og má því ætla að sala á 16,8 milljónum hluta hafi skilað Thiel um það leyti tæpum 640 milljónum dala, jafnvirði um 78 milljarða íslenskra króna. Virði Facebook á markaði hefur hrunið um 50% svo til frá fyrsta degi og stendur það nú í 19 dölum á hlut.

Bandaríska tímaritið Forbes reiknaðist svo til í fyrra að auður Thiel hafi numið 1,5 milljörðum dala og setti hann í 293. sæti yfir ríkustu menn Bandaríkjanna. Með sölunni nú má ætla að veski Thiel hafi tútnað svolítið út síðan þá. Auður Thiel byggir á sölu hans á hlutabréfum í PayPal sem hann setti á laggirnar á sínum tíma. Hann hefur fjárfest í fjölda sprota- og tæknifyrirtækjum síðan þá, svo sem Yammer og LinkedIn.