Í nýrri greingu frá Samtökum Iðnaðarins kemur fram að ríflega 40 þúsund manns störfuðu í iðnaði á síðastliðnu ári eða einn af hverjum fimm launþegum í landinu. Eru störfin fjölbreytileg á sviði framleiðsluiðnaðar, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar og tækni- og hugverkaiðnaðar.

Í greiningunni segir jafnframt að iðnaðarstarfsemi hér á landi sé afar mikilvægur þáttur í gangverki hagkerfisins. Skapar greinin margvísleg störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Ef tekið er með óbeint framlag greinarinnar til atvinnusköpunar er umfang hennar hins vegar umtalsvert meira en í nýlegu mati Business Europe komi fram að tíu störf í iðnaði skapi ríflega 6 störf í öðrum greinum hagkerfisins s.s. í ýmsum þjónustugreinum.

Séu tölurnar yfirfærðar á Ísland megi því leiða líkum að því að iðnaðarstarfsemi skapi um 25 þúsund afleidd störf og iðnaðurinn standi því beint og óbeint undir einum þriðja af öllum störfum landsins.

Einnig kemur fram í greiningunni að laun hérlendis hafa verið að hækka mun hraðar hér á landi á síðustu árum en í löndum helstu samkeppnisfyrirtækja íslensks iðnaðar. Hefur þetta ásamt mikilli hækkun á gengi krónunnar veikt samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gagnvart erlendum keppinautum og vegið að markaðshlutdeild hans.

Eru laun á Íslandi orðin ein þau hæstu sem fyrirfinnast. Voru mánaðarlaun á Íslandi t.d. árið 2017 þau önnur hæstu innan OECD ríkjanna á eftir Sviss.

Greininguna í heild sinni má lesa hér .