Samkvæmt rannsókn bresku heimasíðunnar MyVoucherCodes.co.uk nota 18% debet- og kreditkortanotenda afmælisdag sinn sem leyninúmer kortanna. Þá geyma um 13% leyninúmerin í veskinu.

Rannsóknin náði til 1576 manns.

Í frétt Telegraph segir að 67% þeirra sem nota afmælisdaginn sinn sem leyninúmer hafi svarað því til að númerið þyrfti að vera eftirminnilegt. Um 21% höfðu einhvern tímann sagt vini númerið sitt og 3% höfðu sagt vinnufélaga sínum það. Þá höfðu 9% aðspurðra einhvern tímann gleymt leyninúmerinu sínu þegar þau voru að versla.

Margir virtust velja þægindi eftirminnilegs númers fram yfir öryggi þess að hafa það flóknara.

11% aðspurðra höfðu orðið fyrir barðinu á kreditkortasvindlurum.

Þá notuðu um helmingur svarenda sama lykilnúmer fyrir öll sín greiðslukort.

Farhad Farhadi, fjármálaráðgjafi hjá MyVoucherCodes segir í samtali við The Daily Telegraph að það hafi komið á óvart hversu margir nota afmælisdaginn sinn sem leyninúmer og mælir sterklega gegn því.