Starfsfólk í ferðaþjónustu hér á landi voru 18.500 í maí síðastliðnum sem var um 10,1% af heildarfjölda starfandi í hagkerfinu í þeim mánuði. Ríflega einn af hverjum tíu starfandi í mánuðinum voru því í ferðaþjónustu. Þetta kemur fram í nýrri frétt Greiningar Íslandsbanka þar sem stuðst er við tölur frá Hagstofu Íslands.

Þar kemur fram að þetta sé nokkuð meiri fjöldi en starfaði í greininni í maí á síðasta ári, en þá voru starfsmenn í ferðaþjónustu 16.900 talsins eða 9,4% af heildarfjölda starfandi í landinu í þeim mánuði. Hefur starfsmönnum í greininni fjölgað um 9,5% eða um 1.600 milli ára.

Greining Íslandsbanka segir að 3.900 fleiri hafi starfað í hagkerfinu öllu í maí á þessu ári heldur en í sama mánuði í fyrra. Skýri vöxturinn í ferðaþjónustunni 41% af þeirri fjölgun. Greinin haldi því áfram að vera lykilgrein í því að fjölga störfum í hagkerfinu í þessari uppsveiflu.

„Í maí síðastliðnum voru 13.200 án vinnu og atvinnuleysið 6,7% samanborið við 7,2% í fyrra. Ljóst er að fjölgun starfa í ferðaþjónustu hefur átt drjúgan þátt í því að draga úr atvinnuleysinu á tímabilinu líkt og frá upphafi þeirrar uppsveiflu sem nú stendur yfir í hagkerfinu. Að sama skapi hefur greinin átt drjúgan hluta af hagvextinum eða um þriðjung að okkar mati á tímabilinu frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér árið 2010 þar til í fyrra,“ segir í fréttinni.