Ron Wayne Burkle, sem er í 98. sæti á lista Forbes yfir ríkustu menn heims, settist í stjórn Eimskips á aðalfundi félagsins síðastliðinn fimmtudag 31. mars, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Burkle er stjórnarformaður bandaríska fjárfestingarsjóðsins Yucaipa Companies sem á 32,3% hlut í Eimskipi.

Burkle, sem er 58 ára gamall, er talinn vera á meðal ríkustu manna Bandaríkjanna og heimsins alls. Heildarvirði eigna hans samkvæmt Forbes er um 3,2 milljarðar dala, um 366 milljarðar króna. Hann er bandarískur ríkisborgari, fráskilinn þriggja barna faðir og býr í London.

Yucaipa hefur átt tvo stjórnarmenn í Eimskipi frá því að sjóðurinn eignaðist í félaginu. Annar þeirra, Marc Smernoff, vék úr stjórninni fyrir Burkle. Að öðru leyti er stjórn Eimskips óbreytt frá því sem áður var og Bragi Ragnarsson er áfram formaður hennar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.