Milljarðamæringurinn Kirk Kerkorian, sem á stóran þátt í gríðarlegri uppbyggingu hinnar vinsælu Las Vegas borgar, er látinn 98 ára að aldri.

Þessi magnaði viðskiptajöfur er sonur armenskra innflytjenda og var hann stærsti hluthafi MGM Resorts International, sem á hin margfrægu MGM Grand og Bellagio hótel í Las Vegas.

Kerkorian var þekktur fyrir að kaupa og selja MGM kvikmyndaverið í þrígang og græða á því í hvert einasta skiptið. Hann lést á mánudagskvöld í Los Angeles.

„Hr. Kerkorian á stóran þátt í því að Las Vegas varð einn vinsælasti ferðamannastaður í heimi,“ sagði í yfirlýsingu frá MGM Resorts.

Kerkorian hætti í skóla einungis 16 ára gamall og gerðist boxari. Í seinni heimsstyrjöldinni fór hann í hættuleg verkefni þar sem hann sendi herflugvélar frá Kanada til Bretlands. Hann hélt áfram að fljúga eftir stríðið og stofnaði lítið flugfélag fyrir fjárhættuspilara sem vildu komast til Los Angeles til Las Vegas án þess að þurfa að keyra.

Hann byrjaði að kaupa eignir í Las Vegas árið 1962 eftir að hafa selt flugfélagið, sem hann keypti aftur síðar. Þá átti hann einnig hlut í General Motors og Ford á fyrsta áratug 21. aldarinnar.

Í maí á þessu ári var Kerkorian metinn á 4,2 milljarða dollara hjá tímaritinu Forbes, en fyrir hrun var hann metinn á 16 milljarða.