Ísbúð Vesturbæjar ehf., sem sérhæfir sig í gerð og sölu á ís í fimm ísbúðum á höfuðborgarsvæðinu, hagnaðist um 8,8 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 16,6 milljónir árið áður.

Ísbúðir félagsins seldu ís fyrir tæplega 485 milljónir – sem jafngildir tæplega einum miðlungs bragðaref á hvern Íslending – og drógust tekjurnar saman um 4,6% milli ára. Rekstrarkostnaður nam rúmlega 455 milljónum og dróst saman um 2,2%. Rekstrarhagnaður nam 11,9 milljónum en var 24,4 milljónir árið á undan.

Eignir félagsins námu 80,5 milljónum um áramótin og var eiginfjárhlutfall 22,7%. Handbært fé jókst um 21,9 milljónir og nam 24,2 milljónum í árslok.

Framkvæmdastjóri Ísbúðar Vesturbæjar er Kristmann Óskarsson. Ísbúð Vesturbæjar er í eigu danska smjörlíkisframleiðandans Dragsbæk margarinfabrik A/S (67,6%) og Guðjóns Rúnarssonar (32,4%).