Ragnheiður Harðardóttir, einn dómaranna í Exeter-málinu svokallaða, skilaði sératkvæði og vildi sakfella þá Jón Þorstein Jónsson og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrir umboðssvik. Hún var hins vegar sammála meðdómurunum sínum, Arngrími Ísberg dómsformanni og Einari Ingimundarsyni, um að sýkna bæri Styrmi Þór Bragason.

Niðurstaða dómsins var hins vegar sú að sýkna bæri alla þrjá sakborninganna . Hún var kynnt í morgun klukkan 11.

Málið snýst um lánveitingar Byrs upp á um milljarð króna m.a. til þess að kaupa stofnfé af ákærðu Ragnari og Jóni Þorsteini, og MP banka. Félagið Exeter Holdings fékk m.a. lán til þess að fara út í stofnfjárkaup. Ákært var fyrir umboðssvik, og svo var Styrmir Þór ákærður fyrir peningaþvætti að auki.