Einn fjárfestir féll frá áskrift sinni um kaup á hlutabréfum í Högum í hlutafjárútboði félagsins sem lauk í síðustu viku. Hann ætlaði að kaupa hlutabréf fyrir hálfa milljón króna.

Í tilkynningum frá Högum um niðurstöðu hlutafjárútboðsins kemur fram að ákvörðun þessa eina fjárfestis hafi óveruleg áhrif á niðurstöðu útboðsins og engin áhrif á úthlutun hlutabréfa.

Eftirspurn eftir 30% hlut í Högum var áttfalt meiri en framboðið og hljóðuðu heildartilboð upp á 40 milljarða króna. Hlutabréf voru hins vegar seld fyrir rúma 4,9 milljarða og var hlutur hvers þess sem lagði fram tilboð í félagið skertur verulega.

Hlutabréf Haga verða skráð til viðskipta í Kauphöllinni á föstudag.